154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[15:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Árleg skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál er nú enn á ný lögð fram. Í ár eru 80 ár frá lýðveldisstofnun og þá er hollt að líta aðeins um öxl. Stórir sigrar hafa unnist og lífskjör landsmanna hafa almennt stökkbreyst. Sú lífskjarasókn hefur byggst á frjálsum viðskiptum, að stærstum hluta útflutningsviðskiptum, auk alþjóðasamskipta á sviði stjórnmála, lista og menningar. Án traustra bandamanna og sterkra alþjóðlegra samskipta værum við einfaldlega fátækari í víðu samhengi. Þessu má meðal annars þakka farsælli utanríkisstefnu sem byggir á því alþjóðakerfi sem verið hefur við lýði frá því að lýðveldið var stofnað.

Þessu kerfi er nú ógnað. Innrásarstríð Rússlands er stærsta ógn við frið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og árás á alþjóðakerfið sem sjálfstæði Íslands byggist á. Ísland hefur með ráðum og dáð stutt varnarbaráttu Úkraínumanna, sem leggja nú líf sitt að veði fyrir land sitt og frelsi. Fyrir botni Miðjarðarhafs hefur ófriðarbál kviknað með blóðugum átökum og ómældum hörmungum sem haft hafa víðtæk samfélagsleg áhrif og kynt undir sundrungu meðal þjóða. Í Súdan, á Haítí og í Mjanmar þjást óbreyttir borgarar sem ekkert hafa til sakar unnið í þeirri skálmöld sem þar ríkir. Vaxandi skautun og verndarhyggja, afturför lýðræðis og mannréttinda, að ógleymdri loftslagsvá, eru allt alvarlegar áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Fyrir litla þjóð sem byggir velsæld sína og sjálfstæði á öflugu alþjóðakerfi, opnum heimsviðskiptum og virðingu fyrir alþjóðalögum er ekki valkostur að sitja hjá.

Á víðsjárverðum tímum er enn brýnna að vel sé hlúð að víðtækum hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi. Utanríkisþjónustan er framvörður þjóðarinnar í margbreyttri hagsmunagæslu sem lýtur að varðveislu alþjóðakerfisins og grunngildanna sem það byggir á, vörnum og öryggi landsins, markaðsaðgangi fyrir íslensk fyrirtæki og varðstöðu um það ferða- og athafnafrelsi sem við Íslendingar njótum á alþjóðavettvangi, auk aðstoðar við Íslendinga og íslensk fyrirtæki erlendis þar sem sendiskrifstofur Íslands víða um heim gegna lykilhlutverki.

Framlag Íslands er stundum veigameira en smæð okkar segir til um. Sögulegur leiðtogafundur Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík fyrir ári við góðan orðstír var áþreifanlegt framlag Íslands til að treysta í sessi grunngildi ráðsins; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Þetta endurspeglast í Reykjavíkuryfirlýsingunni, lokaniðurstöðum fundarins, og þeim meginreglum um lýðræði sem leiðtogarnir samþykktu að fylkja sér um og kenndar eru við Reykjavík, á ensku, með leyfi forseta, Reykjavik Principles of Democracy. Þótt fundurinn hafi verið hátíðlegur og vel af öllu skipulagi og umgjörð látið, mátti glöggt merkja að hann var haldinn í skugga innrásar Rússlands í Úkraínu. Stuðningur aðildarríkjanna við baráttu Úkraínumanna fyrir landi sínu og frelsi var þungamiðjan í umræðum og niðurstöðum fundarins. Leiðtogarnir ályktuðu í þágu brottnuminna úkraínskra barna og með stofnsetningu alþjóðlegrar tjónaskrár fyrir Úkraínu var stigið mikilvægt skref í átt að uppgjöri á þeim skaða sem Rússland veldur með ógeðfelldu framferði sínu. Fundurinn var lokastefið í hálfsárslangri formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Auk grunngildanna var lögð áhersla á málefni barna, kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks og tengsl umhverfis og mannréttinda. Þessar sömu áherslur eru í fyrirrúmi í stjórnarstörfum Íslands í Mennta- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og verða grundvallaráherslur í setu okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna tímabilið 2025–2027, náum við þar kjöri.

Í 75 ár hefur Ísland tryggt öryggi sitt, frú forseti, með þátttöku í sterkasta varnarbandalagi sögunnar og með tvíhliða varnarsamningi við öflugasta herveldi heims. Nú þegar alþjóðakerfið á undir högg að sækja og Evrópa stendur frammi fyrir stærstu öryggisógn frá lokum síðari heimsstyrjaldar er nauðsynlegt að Ísland vinni að sameiginlegum öryggishagsmunum bandalagsins sem verðugur bandamaður. Áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu er mikilvægasta framlag lýðræðisríkja til að tryggja eigið öryggi og varnir. Samtímis glíma þau við fjölþáttaógnir, hættu á hryðjuverkum og áskoranir sem fylgja hraðri tækniþróun og örum breytingum í alþjóðasamfélaginu. Vegna þessa gerbreytta öryggislandslags hafa ríki Evrópu snúið við blaðinu og hækkað framlög sín til varnarmála svo um munar. Er svo komið að meiri hluti bandalagsríkja mun standa við skuldbindingar sínar innan Atlantshafsbandalagsins um að verja a.m.k. 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hafa stefnur og áætlanir verið uppfærðar með áherslu á nærvarnir og fælingu. Hér á landi hefur verið brugðist við með því að uppfæra viðbragðsáætlanir í takt við áætlanir bandalagsins og setja aukinn kraft í alþjóðlegt samstarf á sviði varnarmála. Samhliða auknu samstarfi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur svæðisbundinni varnarsamvinnu vaxið fiskur um hrygg. Sameiginleg verkefni Bandaríkjanna og Íslands, á grundvelli gagnkvæmra varnarskuldbindinga, hafa til að mynda vaxið að umfangi vegna aðgerða og innviðauppbyggingar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, ekki síst í tengslum við kafbátaeftirlit og fælingaraðgerðir á Norður-Atlantshafi. Þannig höfum við markvisst lagt meira af mörkum til sameiginlegra öryggishagsmuna og eflt öryggi Norður-Atlantshafssvæðisins.

Innan lands miðar aukið samráð á sviði öryggis- og varnarmála að því að styrkja álags- og áfallaþol innviða, stjórnkerfis og samfélagsins alls vegna þeirra ólíku öryggisógna sem við stöndum frammi fyrir. Fjárframlög til varnarmála hérlendis hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu, innlent samráð verið styrkt mjög og upplýsingaskipti um öryggis- og varnarmál verið efld. Í fjármálaáætlun 2025–2029 eru framlög til varnarmála aukin enn frekar. Til þess að geta talist trúverðugur aðili að þessu öfluga varnarsamstarfi þarf Ísland að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra varna. Það má þó aldrei gleymast að slíkt framlag er fyrst og fremst í okkar eigin þágu. Ísland þarf að fjárfesta í eigin getu til að tryggja eigin öryggishagsmuni sem jafnframt eykur öryggi annarra bandalagsríkja. Í þeim efnum eru mörg tækifæri til þess að gera betur.

Frú forseti. Í rúm tvö ár hafa Úkraínumenn varist ólöglegri og grimmilegri allsherjarinnrás Rússlands, fært með því ómældar fórnir og sýnt meira hugrekki og kænsku en nokkur bjóst við. En þjóð getur ekki varið sig með hugrekkinu einu saman. Undanfarna mánuði hafa Úkraínumenn kallað eftir því að Vesturlönd veiti þeim enn meiri og tímanlegri stuðning því það er sannarlega við ramman reip að draga í þessu stríði. Það er nú deginum ljósara að Rússar svífast einskis og virða alþjóðalög og -samninga að vettugi þegar heimsvaldastefna þeirra er annars vegar. Í ljósi þessa gjörbreytta öryggislandslags í Evrópu sáu Finnland og Svíþjóð þann kost vænstan að láta af langvarandi stefnu um að standa utan varnarbandalaga og ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið.

Það er því um fleira að tefla en landsvæði og sjálfstæði Úkraínu. Alþjóðakerfið, virðing fyrir alþjóðalögum og friðhelgi landamæra, ásamt öryggi og frelsi Evrópubúa er einfaldlega að veði. Væri framganga Rússa látin óátalin fæli það í sér umbreytingu á leikreglum alþjóðasamfélagsins í þá veru að breyta megi landamærum og uppræta fullveldi í skjóli vopnavalds. Þess vegna er nauðsynlegt að Ísland taki þátt í samstilltu átaki vestrænna lýðræðisþjóða um að standa þétt við bakið á Úkraínu þangað til Úkraína sigrar. Í þessu augnamiði samþykkti Alþingi nýlega mikilvæga ályktun um langtímastuðning Íslands við Úkraínu og á næstunni munu stjórnvöld skrifa undir tvíhliða samning við Úkraínu þar að lútandi. Minnug þess varnarstuðnings sem við sjálf njótum getum við ekki veigrað okkur við því að styðja með beinum hætti við varnir Úkraínu til að svara brýnni þörf á vígvellinum. Án vopna og varna verður innrás Rússlands ekki hrundið, mannúðarkrísan dýpkar og stuðningur við framþróun og lýðræðislegar umbætur verður til einskis. Með því að svara kalli Úkraínu stöndum við vörð um það alþjóðakerfi sem fullveldi Íslands byggist á. Það sama gildir um nágrannaríki Úkraínu og á nærsvæðum á Balkanskaga og í Suður-Kákasus þar sem áhrif Rússa ógna stöðugleika og framförum. Það er mikilvægt að lýðræðisþjóðir leggi sig fram við að aðstoða þessi ríki við að feta veg lýðræðis, frelsis og mannréttinda.

Sjónir heimsbyggðarinnar hafa að undanförnu beinst að þeim harmleik sem á sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Skelfileg hryðjuverkaárás Hamas í Ísrael 7. október 2023, sem Ísland fordæmdi harðlega, var mannskæðasta árás á gyðinga frá helförinni. Ísland er meðal þeirra ríkja sem studdu rétt Ísraels til að verja sig gegn slíkri ógn en gerði jafnframt frá upphafi skýra kröfu um að stjórnvöld færu að alþjóðalögum í varnarbaráttu sinni. Alþingi áréttaði ákall Íslands um að hryðjuverk skuli fordæma, alþjóðalög skuli standa og grunnreglum um vernd borgara og aðgengi fyrir mannúðaraðstoð eigi aldrei að fórna. Skýr afstaða Alþingis í þessum efnum hefur verið leiðarljós í öllum málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi.

Sterku ákalli Íslands og alþjóðasamfélagsins um vopnahlé hefur ekki verið svarað. Þúsundir óbreyttra borgara og barna liggja í valnum, neyðaraðstoð sætir enn óásættanlegum hindrunum og hungursneyð vofir yfir. Fjöldi gísla er enn í haldi Hamasliða. Ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ákvörðun Alþjóðadómstólsins í Haag um bráðabirgðaráðstafanir hafa því miður litlu breytt. Átökin hafa haft áþreifanleg áhrif á öryggi á svæðinu öllu og áfram er hætta á útbreiðslu þeirra. Íran grefur undan stöðugleika með stuðningi við hryðjuverkasamtök á svæðinu, nú síðast með beinni árás sinni á Ísrael sem Ísland fordæmdi harkalega. Öryggi á Vesturbakkanum hefur farið þverrandi og samstaða hefur náðst innan ESB um þvingunaraðgerðir gegn herskáum landnemum á Vesturbakkanum, sem Ísland hyggst innleiða. Það er því grundvallaratriði að varanleg lausn finnist sem allra fyrst á langvarandi deilu Ísraels og Palestínu, tveggja ríkja lausn sem krefst bæði hugrekkis og fórna aðila.

Átök og óstöðugleiki valda víðar þjáningu. Ekkert lát virðist á ofbeldisfullri borgarastyrjöld í Súdan sem hrakið hefur milljónir á flótta og valdið alvarlegri mannúðarkrísu. Ástandið á Haítí hefur farið hríðversnandi með yfirtöku glæpagengja. Í Afganistan fer vægast sagt bágri stöðu og réttindum kvenna sífellt aftur og hætta er á stigmögnun átaka í Mjanmar. Svo mætti því miður lengi telja.

Það er því ekkert lát á þeim málefnum sem alþjóðakerfið þarf að leita lausna á. Ísland hefur ríkum skyldum að gegna í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Með markvissu framlagi til þróunarsamvinnu getum við stuðlað að aukinni velsæld, jöfnuði og stöðugleika. Alþjóðleg þróunarsamvinna verður þannig áfram ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og lykilframlag okkar til framfylgdar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Það skipti okkur máli að niðurstöður jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD á þróunarsamvinnu Íslands, sem kynntar voru um mitt síðasta ár, skyldu staðfesta að framlag íslenskra stjórnvalda hafi skilað umtalsverðum árangri. Í þingsályktun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028 er skýrt að við ætlum að halda áfram á réttri braut. Stefnan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sameiginlegum vegvísi þjóða heims í átt að farsæld og friði. Með öflugu samstarfi við alþjóðastofnanir styður Ísland með árangursríkum hætti við þau ríki sem helst þurfa á stuðningi að halda. Nýlega hafa rammasamningar við sjö stofnanir Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðar- og þróunarsamvinnu verið endurnýjaðir til þriggja ára. Í gegnum samstarfið við Alþjóðabankann leggur Ísland sitt af mörkum til sjálfbærrar uppbyggingar innviða og efnahags þróunarríkja, sérstaklega allra fátækustu ríkjanna. Í öllu samstarfi leggja íslensk stjórnvöld áherslu á mannréttindi, kynjajafnrétti, sjálfbæra nýtingu sjávar- og orkuauðlinda.

Frú forseti. Íslendingar hafa náð markverðum árangri til bættra lífskjara og aukinnar velferðar í tvíhliða samstarfsríkjum í þróunarsamvinnu. Á þeim 35 árum sem liðin eru frá því að Ísland hóf þróunarsamvinnu í Malaví höfum við stuðlað að bættum aðgangi að hreinu vatni fyrir um 400.000 manns, námsumhverfi 100.000 barna verið bætt og 250.000 konum og börnum verið tryggður aðgangur að bættri heilbrigðisþjónustu. Eitt allra fátækasta ríki heims, Síerra Leóne, er nýtt samstarfsríki Íslands. Sendiskrifstofa opnaði á liðnu hausti og var formlega opnuð 2. maí sl. Þar er Ísland eitt fárra samstarfsríkja með viðveru í landinu og tækifærin til góðra verka óteljandi. Stefnt er að því að útrýma fæðingarfistli, sjá 30.000 börnum fyrir heimaræktuðum skólamáltíðum og bæta aðgang að neysluvatni og hreinlæti. Ísland hefur einnig átt í farsælu samstarfi við héraðsyfirvöld í Úganda. Þróun mannréttinda hinsegin fólks í landinu veldur hins vegar verulegum áhyggjum.

Frú forseti. Frjáls alþjóðaviðskipti hafa ætíð verið drifkraftur framfara og velsældar en að undanförnu hafa átök og skautun á alþjóðavettangi haft margvísleg neikvæð áhrif á samofið efnahagslíf heimsins. Vart hefur orðið við vaxandi einangrunar- og verndarhyggju í alþjóðaviðskiptum. Ríki huga nú þegar að hagvörnum sínum, svo sem öryggi aðfangakeðja, og eru í auknum mæli meðvituð um hættuna af því að frjáls milliríkjaviðskipti umbreytist í pólitískt vogarafl. Þar eru samstarfsþjóðir okkar á Evrópska efnahagssvæðinu engin undantekning.

Ísland leggur áherslu á góða framkvæmd EES-samningsins, mikilvægasta viðskiptasamnings Íslands, sem tók gildi fyrir þremur áratugum síðan og hefur óumdeilt fært almenningi og atvinnulífi gríðarlegan ávinning. Þátttaka í innri markaðnum og styrk staða hans er þannig mikilvægur liður í hagvörnum okkar Íslendinga. Stjórnvöld beita sér einnig fyrir því að koma á fullu tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir inn á markað Evrópusambandsins. Mikilvægt skref í þeirri vinnu var sameiginleg yfirlýsing um endurskoðun markaðsaðgangs fyrir vörur, sem samþykkt var sem hluti af niðurstöðum viðræðna um nýtt tímabil uppbyggingarsjóðs EES, sem var lokið í nóvember á síðasta ári. Það er út af fyrir sig óásættanlegt að Evrópusambandið haldi tollum á sjávarafurðir í viðskiptum við Ísland, náið samstarfsríki, þegar fyrir liggur að sambandið fellir slíka tolla niður í fríverslunarsamningum sem sambandið gerir gagnvart öðrum ríkjum.

Ísland hefur í áranna rás gert fjölda viðskiptasamninga til að tryggja aðgang okkar að erlendum mörkuðum og gera íslenskan útflutning samkeppnishæfari, m.a. í gegnum aðild okkar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Indlands, sem undirritaður var í Nýju-Delí í mars síðastliðnum, var sá fyrsti sem Indverjar gera við Evrópuríki. Samningurinn er þýðingarmikill fyrir viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu og felur í sér fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf með stórbættum markaðskjörum fyrir allar helstu útflutningsvörur landsins. Til að setja stærðina í samhengi búa álíka margir á Indlandi og í gjörvallri Afríku.

Frú forseti. Við Íslendingar metum friðinn mikils og að samskipti þjóða einkennist af virðingu, jafnræði og sátt og sannarlega hefur íslensk þjóð eins og allar aðrar þjóðir hagsmuni af því að friður ríki í kringum okkur. En það brennur því miður við að hugmyndin um frið sé oft hér á landi sett upp sem andstaða við varnir. Það skiptir máli að við áttum okkur á því að við hér á Íslandi erum ekki meira friðelskandi en aðrar þjóðir. Það eru bæði sögulegar og aðrar ástæður fyrir því að við erum eitt fárra þjóðríkja án hers og það er ekki af því að við séum meira friðelskandi en aðrir. Munurinn á okkur Íslendingum og því fólki sem hefur þurft að verjast innrásum annarra eða verið þvingað til að taka þátt í innrásinni í önnur lönd er einfaldur. Við erum heppin og við getum verið þakklát fyrir það en við eigum ekki að gorta okkur af því að vera heppin.

Þegar við fjöllum hér í dag um skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál þá tel ég mikilvægt að við setjum þetta í samhengi því að við þurfum að bregðast við breyttum aðstæðum í öryggismálum og við gerum það með því að þétta raðirnar með öðrum lýðræðisríkjum. Við gerum það með því að byggja upp eigin varnir á sama tíma og við tökum þátt í sameiginlegum vörnum bandamanna okkar og við gerum það með því að leggja okkur fram og vanda okkur og mæta þeim ógnum sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að fullorðnast því þegar friði er ógnað í Evrópu þá kemur það okkur við. Þegar kemur að því að leggja okkar fram í stuðningi við það að gera það sem þarf þá eigum við ekki að spyrja fyrst hvað hentar okkur best heldur hvort við getum lagt fram eitthvað af því sem brýnust þörf er á.

Við hér á Íslandi búum almennt við lífsgæði sem óvíða verður við jafnað og hafa þau byggst upp á frelsi, mannréttindum, jafnrétti og jöfnum tækifærum. Fyrir okkur sem búum við slík lífsgæði er nánast ómögulegt að gera okkur í hugarlund að þau geti glatast en það geta þau. Okkur virðist óhugsandi að búa í samfélagi þar sem skoðanafrelsi, málfrelsi, fjölmiðlafrelsi er takmarkað mjög, mannréttindi hinsegin fólks virt að vettugi og árangri í jafnréttismálum snúið til verri vegar. Því miður býr stór hluti mannkyns við slíkar aðstæður. Í því samhengi er mikilvægt að hafa hugfast að hetjuleg barátta úkraínsku þjóðarinnar snýst ekki aðeins um að hrinda innrásarher Rússa heldur einnig að öðlast tækifæri til að tryggja sömu lífsgæði og við njótum, m.a. með aðild að samfélagi evrópskra lýðræðisþjóða. Þau vita sem er að friður er lítils virði án frelsis. Okkar skylda er að standa með þeim og þar liggja hagsmunir okkar einnig.

Í skýrslu þeirri sem hér er til umræðu kemur glögglega fram hversu fjölbreyttum og mikilvægum verkefnum utanríkisþjónustan sinnir. Sama hvernig blæs í samskiptum þjóða þarf Ísland alltaf að geta treyst á að hagsmunagæsla utanríkisþjónustunnar fyrir hönd lands og þjóðar á erlendum vettvangi fari fram af öryggi og festu. Þannig tryggjum við stoðir fullveldisins og grundvöll þeirra lífskjara sem við búum við.